Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Íhaldið ætlar bara að skera niður og fækka störfum

Íhaldið hefur hafið mikinn hræðsluáróður gegn því að ríkið og sveitarfélög reyni að ná í meiri tekjur. Það vill nú svo vel til fólk er ekki svo vitlaust að það veit að séu ekki til peningar til að reka þá þjónustu sem við viljum halda uppi verður að skera niður og dýrasti kostnaðarliðurinn er launakostnaður. Þeir ætla þá væntanlega að segja upp fólki, fækka störfum hjá hinu opinbera eða hvað? Við jafnaðrmenn teljum eðlilegt að þeir sem betur mega sín í þjóðfélaginu greiði hlutfallslega meira til samfélagsins til að mæta þeim niðurskurði sem óflýjanlegur er. Það verður að gera í sátt við þjóðina og til þess er Jóhönnu Sigurðardóttur vel treystandi.

Af hverju?

Af hverju ætli jafnaðarmenn á Íslandi vilji ganga í Evrópusambandið? Af hverju telur Jóhanna Sigurðardóttir að best sé fyrir íslenskan almenning að ganga í Evrópusambandið? Ætli það sé ekki vegna þess að það er eina örugga leiðin til að endurreisa íslenskt efnahagslíf og til að tryggja velferð. Viljum við ekki afnema verðtrygginguna, fá lága, já lága vexti, lægra vöruverð og tryggan og stöðugan gjaldmiðil þannig að við getum ætlað að fötin sem við keyptum í gær muni e.t.v. kosta það sama að ári. Eins og fótboltaskórnir sem ég keypti handa stráknum mínum í Englandi fyrir ári kosta nákvæmlega það sama ári seinna en hafa hækkað allverulega á Íslandi. Fyrir okkur er þetta eðlilegt þar sem við þekkjum ekkert annað en háa vexti, hækkandi verðlag og rokkandi gengi. Viljum við það áfram?

 


Algjörlega sammála Jóhönnu, einu sinni sem oftar

Jóhanna sagði að almenningur myndi þurfa að borga hinar niðurfelldu skuldir í formi hærra skatta. Heildarkostnaðurinn yrði væntanlega um 8-900 milljarða króna eða 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Jóhanna hafnaði jafnt hugmyndum framsóknarmanna um 20% niðurfellingu allra fasteignaskulda sem hugmyndum úr röðum Vinstri grænna um fasta 4 milljóna króna niðurfellingu húsnæðisskulda.

Forsætisráðherra bað fulltrúa verkalýðsins líka að líta í eigin barm. Hún sagði að uppræta þyrfti spillingu og ofurlaun innan verkalýðshreyfingarinnar og taldi ástæðu til að endurskoða meðal annars greiðslur innan ASÍ, að því er kemur fram í frétt RÚV.


Launþegar ráði lífeyrissjóðunum

Er ekki tími til kominn að launþegar krefjist þess að stjórna lífeyrissjóðunum sem eru þeirra eignir? Við eigum að gera kröfur um breytingar eftir kosningar.

Jafnaðarstjórn

Vill fólk ekki fá að hafa áhrif með beinum hætti hvaða ríkisstjórn verður við völd eftir kosningar? Vill fólk ekki vita með vissu að greiði það Samfylkingunni atkvæði sitt stuðli það að því að Jóhanna Sigurðardóttir verði áfram forsætisráðherra í ríkisstjórn með Vinstri grænum og vilji stjórn í anda jafnaðar í samfélaginu. Tek fyllilega undir samþykkt Ísfirðinga og annarra Samfylkingarmanna um að við eigum að gera kosningabandalag með einhverjum hætti milli núverandi stjórnarflokka.  


Rekstur lífeyrissjóðanna

Lífeyrissjóðir landsins eru ekkert annað en peningar í eigu launþega. Í stjórnum þeirra sitja auk fulltrúa verkalýðsfélaganna fulltrúar fyrirtækjanna í landinu. Ekki hefur farið mikið fyrir umræðu um rekstur þessara sjóða fyrr en fjármálakreppan kom til. Þá hafa farið í loftið ótrúlegar tölur um rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna og ofurlaun þeirra er starfa og stjórna sjóðunum og flestum blöskrar. Á komandi mánuðum hlýtur að vera ein af kröfunum um nýtt og betra Ísland að rekstur þessara sjóða verði rannsakaður og grundvallarbreyting verði gerð á stjórnum og kostnaðinum.

Það vilja vonandi allir jafnaðarmenn.


Breytingar hjá Samfylkingunni

Hafi menn viljað breytingar á framboðslistum Samfylkingarinnar er ljóst að þær eru mjög miklar ef horft er á væntanleg þingsæti. Í efstu sætum hafa orðið  tvær breytingar, í Reykjavík og í Kraganum, tveimur af stærstu kjördæmum landsins. Í öðru sæti er nýtt fólk í Norðvestri, Norðaustri, Suðurkjördæmi og í Kraganum. Í næstu tveimur sætum hafa einnig orðið breytingar og nýtt fólk er í Norðvestri, Norðaustri, í fjórða sæti í Suðurkjördæmi, Kraganum og væntanlega í Reykjavík. Nýtt og öflugt fólk hefur náð þeim árangri að vera í væntanlegum þingsætum miðað við óbreytt fylgi. Þar má nefna Ólínu Þorvarðardóttur, Sigmund Erni, Oddnýju Harðardóttur, Lúðvík Geirsson, Sigríði Ingibjörgu, Skúla Helgason, Valgerði Bjarnadóttur; vonandi gleymi ég engum Síðan banka aðrir nýir liðsmenn á dyrnar í næstu sætum ef fylgið eykst. Einhverjir er á þeirri skoðun að við hverjar kosningar sé best að henda sem flestum út og sérstaklega núna. Þeirrar skoðunar er ég ekki því einhver reynsla þarf að vera fyrir hendi í þingmannahópnum. Þá  hljóta þeir sem endurnýjað haf umboð sitt að beygja sig og bugta eftir allt sem á hefur gengið.  Og þingmenn mega ekki gleyma að þeir eru þjónar þjóðarinnar og ekkert annað; þeir verða og eiga að átta sig á því hvar í flokki sem þeir eru, og ekki síður verði þeir ráðherrar.

Það kreppir að í sjávarbyggðum í tvennum skilningi

Þeir sem skapað hafa hvað mest verðmæti fyrir okkur Íslendinga fá nú að kenna á kreppunni á annan hátt en margur annar. Tekjur fiskvinnslufólks á Austurlandi hafa byggst á mikilli vinnu á haustmánuðum og fyrstu mánuði ársins eða fram að miðjum mars en nú er öldin önnur. Síldarvertíð lauk snögglega með sýkingu síldarinnar og engin loðna fannst og fólkið situr heima með sínar lágu tekjur. Og að sjálfsögðu kemur þetta niður á rekstri sveitarfélaganna í lægri útsvarstekjum og lægri  tekjum hafnanna. Ekki bjart útlit á þeim bæjum en gamli Íslendingurinn bítur á jaxlinn eða hvað?

Hvenær tapar maður prófkjöri og hvenær tapar maður ekki...

Þeir sem taka þátt í prófkjöri eru varla sáttir nái þeir ekki markmiðum sínum hvað þá að vera ekki valdir í hópinn.  Undirritaður er þegar upp er staðið nokkuð sáttur með útkomuna miðað við hversu lítil vinna var lögð í baráttuna t.d. að missa af kynningarfundum frambjóðenda en þá var hann staddur í landi Icesave reikninganna; reyndar ekki að reyna að semja og fékk bara góðar móttökur. Til þess að ná árangri í svona kosningum gildir ekkert annað en að kynna sig og sýna sig sem víðast eins og sigurvegari prófkjörsins, Sigmundur Ernir, sannarlega gerði. Til hamingju Sigmundur Ernir og velkominn í hóp jafnaðarmanna í Norðausturkjördæmi. Annars þakka ég öllum sem lögð mér lið í prófkjörinu; gengur bara betur næst...


Ísland frelsis, jafnréttis og bræðralags

Mikið hefur verið ritað og rætt um nýtt Ísland síðustu mánuði. Á síðustu vikum finnst mér eins og margt bendi til að ný ríkisstjórn sé að byrja á að skapa nýtt Ísland þar sem meiri jöfnuður er hafður að leiðarljósi. Ég tel að mikill meirihluti þjóðarinnar sé á sama máli. Þar er af mörgu að taka sem ekki verður rakið hér að sinni. Eftirlaun og lífeyrisréttindi eiga að vera hin sömu á nýju Íslandi og þegar hafa eftirlaunalögin verið afnumin, loksins þegar Sjálfstæðisflokkurinn er farinn úr ríkisstjórn. Öll sérréttindi embættismanna, alþingismanna, ráðherra á að afnema og í fréttunum áðan heyrði ég að dagpeningamál ráðherra og maka hefur verið breytt; burt með öll sérréttindi þeirra. Ofurlaun embættismanna ríkisins á að afnema með handafli og marka stefnu í þá veru að hæstu laun ríkisins verði forseta og forsætisráðherra og síðan verði raðað samkvæmt því niður á við. Þá verði settur á hátekjuskattur eða fleiri skattþrep. Nýtt Ísland  verður ekki myndað með valdaflokkinn sem setið hefur lengst af í ríkisstjórn frá lýðveldisstofnun innanborðs alveg sama hvort formaðurinn heitir Bjarni eða Geir.

Nýtt Ísland í anda frelsis, jafnréttis og bræðralags verður ekki myndað nema undir forystu jafnaðarmanna,

 


Næsta síða »

Höfundur

Aðalbjörn Björnsson
Aðalbjörn Björnsson
Höfundur er  fæddur og uppalinn Vopnfirðingur. Hefur setið í sveitarstjórn í mörg ár og starfa sem skólastjóri á Vopnafirði. Áhugamálin eru einkum knattspyrna, stjórnmál og fréttir auk ýmissa annarra mála.

Bloggvinir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 195

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Um bloggið

Aðalbjörn Björnsson

Nýjustu myndir

  • ...ogg_tilbuin
  • ...all_blogg
  • ...2143_812986
  • ...sl732143
  • ...sl730601

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.